Skaftárhreppur og Hornafjörður saman um náttúrustofu

Samningur um rekstur Náttúrustofu á Suðausturlandi var undirritaður í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í síðustu viku en hún verður rekin af Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi.

Verkefni náttúrustofunnar verða fjölbreytileg og tengjast náttúrunni frá ýmsum hliðum. Henni er meðal annars ætlað að stuðla að rannsóknum og gagnasöfnun; gefa ráðgjöf um landnýtingu og náttúruvernd og stuðla að fræðslu um náttúruna.

Stofnun stofunnar hefur lengi verið í undirbúningi en lokahnykkurinn var samþykkt fjárlaga 2013 þar sem gert er ráð fyrir 17 milljóna króna framlagi frá ríkinu til stofnunar og rekstur hennar. Að auki leggja sveitarfélögin sem að henni standa 4,5 milljónir króna til rekstursins.

Fyrstu tvö starfsár stofunnar mun Sveitarfélagið Hornafjörður eitt bera ábyrgð á rekstrinum en þegar nýtt þekkingarsetur rís á Kirkjubæjarklaustri mun Skaftárhreppur leggja helming á móti, samhliða því að starfið verður jafnframt byggt upp þar.

Stjórn náttúrustofunnar kom saman á fyrsta fundi þann 4. janúar síðastliðinn en fyrsta verkefni hennar verður að ráða forstöðumann sem mun hafa aðsetur á Höfn. Alls bárust átta umsóknir um starfið.

Næstu skref verða að móta stofunni nánari stefnu og í þeirri vinnu verður lögð áhersla á mikla sérstöðu í náttúrufari á svæðinu til dæmis með stærsta jökul utan heimskautanna, virkt eldstöðvabelti, mikil áhrif náttúruafla á land og samfélag og áhrif loftslagsbreytinga.

Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri, situr í stjórn náttúrustofunnar fyrir hönd Skaftárhrepps en aðrir í stjórn eru Rögnvaldur Ólafsson, formaður og Hugrún Harpa Reynisdóttir á Hornafirði.

Fyrri greinSkrifstofa Skaftárhrepps opnar á nýjum stað
Næsta greinVetrardeild Hamars