Skaftárhreppur kaupir hluta Kirkjubæjarklausturs

Sveitarstjórn Skaftárhrepps samþykkti á síðasta fundi sínum að kaupa 5% hlut í jörðinni Kirkjubæjarklaustur.

Um er að ræða 2,5% eignarhlut Braga Gunnarssonar og 2,5% eignarhlut Eddu Gunnarsdóttur í óskiptri sameign jarðarinnar.

Kaupin verða fjármögnuð með eigin hlut sveitarfélagins og er kaupverðið 5,5 milljónir króna.

Skaftárhreppur er nú þegar eigandi að 2,5% hlut í jörðinni Kirkjubæjarklaustur. Að sögn Eyglóar Kristjánsdóttur, sveitarstjóra, er jörðin óskipt í einkaeigu og ekki skilgreint hver á hvaða jarðarhluta. Eygló segir að sú staða hafi verið sveitarfélaginu erfiður ljár í þúfu með tilliti til framkvæmda en þéttbýlið á Klaustri er á þessari jörð.

„Með þessum kaupum vonumst við til að geta klárað skipti á jörðinni þannig að skilgreint verði milli eigenda hvaða landsvæði tilheyrir hverjum svo liðka megi til fyrir framkvæmdum og vexti íbúðabyggðar á Kirkjubæjarklaustri,“ sagði Eygló í samtali við sunnlenska.is.