Skaftárhreppur hvetur til aukinnar útbreiðslu birkis

Birkiskógur. Ljósmynd/Skógræktin

Vinnuhópur um endurskoðun aðalskipulags Skaftárhrepps leggur til að sveitarfélagið beiti sér fyrir aukinni útbreiðslu birkis, varðveislu birkiskóga og endurheimt raskaðra vistkerfa.

Með því verður Skaftárhreppur eitt þeirra sveitarfélaga sem tekur Bonn-áskoruninni, sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga á stórum samfelldum svæðum eða landslagsheildum og er skipulagt af alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN í samstarfi við fleiri aðila.

Víðtækt samstarf
Vinnuhópurinn hvetur til samstarfs Skaftárhrepps, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og jarðanna Skaftárdals, Skálar, Ár og hluta Holtsjarða um beitarfriðun og endurheimt birkivistkerfa á um 7.500 ha svæðis norðan Skaftár. Til að hefta fok jökulleirs á Hálsaleirum í landi Ár verði einnig unnið að þvi að koma upp birkilundum á leirunum til að stuðla að sjálfgræðslu birkis innan svæðisins. Sú aðferð hefur m.a. verið notuð Hekluskógaverkefninu, og gefist afar vel.

Greint er frá þessu á heimasíðu Landgræðslunnar og þar segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri, að tillögurnar muni fara inn í aðalskipulag sveitarfélagsins og næstu skref verði síðan tekin í samráði við Landgræðsluna og Skógræktina.

„Hér hefur verið mikið leirfok síðustu vikur og þétt mistur dag eftir dag þrátt fyrir bliðviðrið sem hefur ríkt,“ segir Sandra Brá. „Við í sveitarfélaginu bindum vonir við að með stækkandi birkiskógum náum við að halda aftur af þessum vágesti sem leirfokið er um leið og við endurheimtum vistkerfi og fáum aukna gróðurþekju sveitarfélaginu til heilla.“

Fyrri greinAð ræna komandi kynslóðir
Næsta greinÞríleikur Bjarna um Skálholt í einni kilju