Skaftárhlaup yfirvofandi

Veðurstofan birti í dag upplýsingar um yfirvofandi Skaftárhlaup. Miðað við þann tíma sem liðinn er frá síðasta hlaupi úr Eystri-Skaftárkatli og þá vitneskju að ketillinn sé fullur er ætlun manna að stutt sé í hlaup.

Rýrnun Vatnajökuls veldur því að hluti hlaups undan Skaftárkötlum getur komið fram í Hverfisfljóti og brúarmannvirki í Fljótshverfi eru ekki miðuð við Skaftárhlaup. Ef rennsli Hverfisfljóts yrði meira en 500 m³/s yxi verulega í Öðulbrúará, Þverárvatni og Fossálum en vatnshæðarmælir í Hverfisfljóti sendir aðvaranir sjálfvirkt til Veðurstofunnar.

Upptök hlaupa í Skaftá eru undir tveimur jarðhitakötlum í Vatnajökli. Þegar hleypur úr þeim rennur vatnið fyrst um 40 km undir jöklinum og síðan 20 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli, sem er viðvörunarmælir við Sveinstind. Söfnunarhraði í katlana er nokkuð jafn; því er langur tími á milli flóða jafnan ávísun á stór flóð. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum.

Vatn tekur nokkurn tíma að ná niður að þjóðvegi en það mun flæða út á hraunið neðan Skálarheiðar. Útbreiðsla þess nær þó ekki hámarki fyrr en nokkru eftir að draga tekur úr rennsli við Sveinstind.

Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum. Hlaupið gæti komið að hluta til undan Síðujökli, sem mundi þá valda hlaupi í Hverfisfljóti og þá koma fram við brúna á þjóðvegi 1.

Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn og því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Fyrri greinJón Daði skoraði í sigri Íslands
Næsta greinÓlafstorg til heiðurs Óla Ket