Sjúkraflutningamenn læra að verja sig

Taekwondo-deild Umf. Selfoss býður nú sjúkraflutningamönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að mæta á æfingar hjá deildinni að kostnaðarlausu.

Hugmyndin kom upp eftir að það hafði færst í aukana að ráðist væri á sjúkraflutningamennina í þeirra störfum. Því þótti það við hæfi að þeir fengju þjálfun í því að verja sig fyrir árásum.

„Þetta er ekki bara spörk og högg sem við erum að æfa heldur mjög mikil sjálfsvörn,“ segir Pétur Már Jensson hjá Taekwondo-deild Umf. Selfoss. „Þá sérstaklega að verjast árásum í þröngu rými eins og sjúkrabílnum,“ bætir Stefán Pétursson sjúkraflutningamaður hjá HSu við.

Hann segir að sjúkraflutningamenn HSu hafi lent í því að ráðist hafi verið á þá. „Það hefur verið hrækt á okkur, slegið til okkar og annað,“ segir Stefán sem vill meina að þetta sé að aukast.

Fyrsta æfingin var á mánudaginn og voru nokkrir sjúkraflutningamenn mættir á hana. „Mér sýnist þeir vera áhugasamir,“ segir Stefán.

Nánari upplýsingar í Sunnlenska fréttablaðinu
Fyrri greinFramkvæmdir í Árborg fyrir hálfan milljarð á árinu
Næsta greinSmíðandi bauð lægst í Lund