Sjúkraflutningamenn í hrossasmölun

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Dýralífið er alltaf hluti af vinnu lögreglumanna og á það við um liðna viku eins og aðrar, eins og greinilega kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Tilkynnt var um kind í sjálfheldu í klettum í Reykjadal í Ölfusi. Lögreglan hafði samband við formann fjallskilanefndar sem þá hafði fengið veður af dýrinu og gert ráðstafanir til að bjarga málum.

Á Höfn var tilkynnt um lausan hund af stærri gerðinni en þegar lögreglan mætti á vettvang var eigandinn búinn að ná hundinum til sín. Þá kom ökumaður á lögreglustöðina á Höfn með kött sem hafði orðið fyrir bíl. Lögreglan las á örmerki kattarins og kom honum í hendur eiganda.

Á Suðurlandsvegi við Rauðalæk var tilkynnt um sjö hross sem voru laus á veginum og af þeim stafaði allnokkur hætta. Sjúkraflutningamenn á leið heim úr flutningi ráku hrossin inn á næsta afleggjara og bóndi í nágrenninu tók síðan að sér að greiða úr málum, hvort sem hann ætti hrossin eða einhver annar.

Að lokum sá leiðsögumaður með hóp ferðamanna til ferða hreindýrs við Fellsfjall í Sveitarfélaginu Hornafirði og var dýrið laskað á fæti. Algengt mun vera að tarfar séu laskaðir á þessum tíma enda stendur fengitími hreindýra yfir og er barátta í tarfahópnum um kvenhylli. Fátt er hægt að aðhafast í þeim málum, segir í dagbók lögreglunnar.

Fyrri greinStórt tap á Ásvöllum
Næsta greinLjósmæðrarekin barneignaþjónusta á Suðurlandi – góður valkostur