Sjúkraflutningamenn færðu Varða góða gjöf

Seinni jólagjöfin frá Félagi sjúkraflutningamanna á Suðurlandi um þessi jól var afhent á barnaspítala Hringsins í gær.

Það var Þorvarður Ragnar Þórarins Sigrúnarson, tveggja ára drengur úr Þorlákshöfn, sem tók á móti gjöfinni ásamt móður sinni, Sigrúnu Berglindi Ragnarsdóttur.

Í sumar greindist Þorvarður, eða Varði eins og hann er kallaður, með illkynja æxli í lifur. Hann var þá nýorðinn tveggja ára. Þetta kom aðstandendum hans mjög á óvart því hann hafði alltaf verið hress og kátur en á einum sólarhring varð hann fárveikur. Ummálsmælingar sem gerðar voru sýndu að um gríðarlega stórt æxli væri að ræða sem ætti alls ekki að komast fyrir inni í svona litlum líkama.

Vegna stærðar þá var æxlið ekki talið skurðtækt en strax hófst gríðarlega ströng og kröftug lyfjameðferð, nærri vikulega í rúma þrjá mánuði. Það tók verulega á Varða litla en hann stóð sig eins og hetja og svaraði meðferð mjög vel.

Æxlið hopaði strax frá byrjun og Varði komst svo í skurðaðgerð þann 5. október. Aðgerðin gekk vonum framar en þar var helmingur lifrarinnar fjarlægður og ekki sáust nein merki um frekari útbreiðslu meinsins, en tíminn verður að leiða það í ljós þar sem krabbameinsfrumur geta falið sig inni í lifrarfrumunum.

Varði var kominn á fullt nokkrum dögum síðar og var í raun fljótari að jafna sig eftir aðgerðina heldur en eftir fótbrotið sem hann lenti í nokkrum dögum fyrir aðgerð. Nokkrum eftir aðgerðina hófst aftur lyfjameðferð sem gengið hefur vel. Þeirri síðustu lauk á Þorláksmessukvöld.

Varði hefur verið ótrúlega brattur í gegnum allt ferlið og lætur þessar takmarkanir ekki stoppa sig í að hafa gaman af lífinu. Hann hefur ekkert getað verið innan um börn síðasta hálfa árið vegna smithættu en er bara ánægður með það og lætur sér nægja að láta fullorðna fólkið snúast í kringum sig, sem það gerir með glöðu geði.

Í heimsókninni á barnaspítalann í gær afhentu sjúkraflutningamennirnir Urður Skúladóttir og Þórir Tryggvason fjölskyldunni 250 þúsund króna peningagjöf frá sjúkraflutningamönnunum ásamt gjöfum fyrir fjölskylduna frá Bónus, Nettó, Fjallkonunni sælkerahúsi, Gallerí Ozone, Tryggvaskála, Bylgjum og börtum, Björgunarfélagi Árborgar og Íslandsbanka.

Peningagjöfin er ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna en þetta er níunda árið í röð sem félagið veitir þennan styrk. Tvö langveik börn hafa verið styrkt ár hvert en á Þorláksmessu fengu Adam Árni Onnoy og fjölskylda samskonar gjöf.

Fyrri greinSjór flæddi inn á iðnaðarsvæðið og upp að þjóðvegi
Næsta grein„Á barmi taugaáfalls af spennublöndnum kvíða“