Sjúkradeild í einangrun vegna niðurgangspestar

Sjúkradeildin á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi var sett í einangrun sl. föstudag eftir að niðurgangspest kom þar upp. Meirihluti sjúklinga veiktist.

Talið er að um sýkingu af völdum nóróveiru sé að ræða en það er óstaðfest. Á vef RÚV kemur fram að á deildinni eru 25 sjúklingar og veiktust 20 þeirra auk nokkurra starfsmanna. Enginn er alvarlega veikur.

Allar heimsóknir á deildina voru takmarkaðar verulega og fram kemur á heimasíðu HSu að vel hafi gengið að vinna á sýkingunni. Ekki er tekið við nýjum sjúklingum á deildina á meðan verið er að vinna á málinu en vonast er til að allt verði komið í samt lag fljótlega eftir helgi.

Fyrri greinStórsigur Selfoss í fyrsta leik
Næsta greinÁr frá gosinu á Fimmvörðuhálsi