Sjúklingar af Landspítalanum fluttir á HSU

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Heilbrigðisstofnun Suðurlands undirbýr nú opnun á tíu til fimmtán rúmum fyrir aldraða sjúklinga sem verða fluttir af Landspítalanum til þess að létta á honum.

Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í gær ýmsar aðgerðir vegna COVID-19 og meðal annars hvernig hægt væri að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins og létta á Landspítalanum. Búið er að tryggja 30 rými utan spítalans fyrir aldraða, en frá og með næstu viku munu Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja taka við sjúklingum frá Landspítala. Þá mun Heilbrigðisstofnun Vesturlands aðstoða Landspítala varðandi mönnun fagfólks.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, sagði í samtali við sunnlenska.is að þar sé verið að undirbúa opnun á tíu til fimmtán rúmum.

„Til að koma þessu heim og saman þrengjum við að annarri starfsemi. Sem dæmi verður fæðingardeildin færð tímabundið. Við ætlum samt sem áður að tryggja örugga og góða fæðingarþjónustu áfram. Við erum jafnframt að efla bráðamóttökuna en þar erum við að fjölga rúmum og bæta við tækjabúnaði. Með þessum aðgerðum getum við haldið sjúklingum lengur hjá okkur,“ segir Díana.

Fyrri greinHamarskonur komust ekki á blað
Næsta greinErilsamur sólarhringur hjá björgunarsveitunum