-0.5 C
Selfoss
Föstudagur 19. apríl 2024
Heim Fréttir Sjöundi bekkur Vallaskóla allur í sóttkví

Sjöundi bekkur Vallaskóla allur í sóttkví

Vallaskóli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Allir nemendur í 7. bekk Vallaskóla á Selfossi hafa verið settir í sóttkví. Um þrjár bekkjardeildir er að ræða og starfsmenn sem koma að árganginum hafa verið settir í úrvinnslusóttkví.

Í morgun var greint frá því að smitin í 7. bekk Vallaskóla væru orðin þrjú en eitt smit hefur bæst við síðan þá og er það í þeirri bekkjardeild sem upphaflega fór í sóttkví.

Í framhaldi af samtali skólastjórnenda og smitrakningarteymisins í dag hafði teymið samband við foreldra og forráðamenn í hinum tveimur bekkjunum í 7. bekk og upplýstu þá um ákvörðun um sóttkví.

Guðbjartur Ólason, skólastjóri, segir að skólayfirvöld séu þakklát foreldrum og forráðamönnum sem undantekningarlaust tóku fréttunum vel. Fulltrúar smitrakningarteymisins munu hafa samband við alla hluteigandi og reiknað er með að allir fari í skimun.

„Ljóst er að skólastarf í 7. bekk mun raskast en það verður bætt upp að hluta til með fjarnámi. Skólastjórar vonast einnig til að röskunin hafi sem minnst áhrif á töku samræmdra könnunarprófa í þessum árgangi sem munu fara fram dagana 24. og 25. september. Þar treystum við á öflugt og gott samstarf við heimilin,“ segir Guðbjartur.

Fyrri grein„Hefði getað lent hvoru megin sem var“
Næsta greinSunnlensku liðin töpuðu öll