Sjötta menningarveislan sett

Menningarveisla Sólheima var sett í sjötta sinn sl. laugardaginn en veislan stendur til 13. ágúst.

Fyrir sex árum var ákveðið að halda skildi tíu vikna menningarhátíð á Sólheimum þar sem ókeypis yrði á alla viðburði. Þetta hefur tekist vonum framar og hafa verið margar frábærar sýningar handverks og listmuna, auk sýninga sem taka á umhverfismálum, orkunýtingu og sjálfbærum húsum. Sögusýningar hafa einnig verið í gangi, bæði í máli og myndum.

Einnig hefur tónlistarfólk lagt til sinn skerf á tónleikum í Sólheimakirkju við frábærar undirtektir. Tónleikar eru alla laugardaga menningarveislunnar kl. 14:00 í Sólheimakirkju .

Fræðslufundaröð með náttúruskoðun hefst kl. 15:00 í Sesseljuhúsi að loknum tónleikum.

Nú í sumar verða sýningar í Ingustofu, Íþróttaleikhúsinu og Sesseljuhúsi. Í Sesseljuhúsi verða sýningarnar Sjálfbær ferðamennska sem unnin er í samvinnu við ferðamálafræði Háskóla Íslands, Sjálfbærar byggingar sem er fræðslusýning um þrjár mismunandi tegundir sjálfbærra húsa og Endurvinnsla og skógar sem unnin er í tengslum við umhverfismars (marsmánuð) á Sólheimum.

Í Ingustofu er samsýning vinnustofa Sólheima, undir áhrifum frá íslenskum þjóðsögum og ævintýrum, þar sem ýmsar kynjamyndir í margvíslegum formum og úr mismunandi efnum sjá dagsins ljós.

Í sal Íþróttaleikhússins er sýning í tilefni af 80 ára afmæli Sólheimaleikhússins. Brugðið er upp svipmyndum úr fjölbreyttri sögu leikfélagsins. Einnig eru útisýningar þar sem eru ljóðagarður, höggmyndagarður og trjásafn.

Kaffihúsið Græna kannan og Vala, verslun og listhús eru opin frá kl. 12:00-18:00 alla daga menningarveislunnar.

Fyrri greinHestur aflífaður eftir slys
Næsta greinFordæma tillögu um tóbaksvarnir