Sjö verkefni fengu styrk úr Kvískerjasjóði

Kvísker, Fjallsjökull og Breiðamerkurjökull í baksýni séð til norðausturs. Ljósmynd / Mats Wibe Lund

Nýlega úthlutaði Kvískerjasjóður styrkjum ársins 2019. Níu umsóknir bárust og hlutu sjö verkefni styrk að þessu sinni en alls var úthlutað tæplega 5,2 milljónum króna.

Náttúrustofa Austurlands hlýtur einnar milljón króna styrk til þess að skoða varpárangur skúms á Breiðamerkursandi sumarið 2019. Varpárangur skúms á Íslandi hefur lítið verið skoðaður og gefur því verkefnið nýjar og mikilvægar grunnupplýsingar um viðkomu skúmsins. Aukin þekking á stöðu skúmsins getur líka gefið upplýsingar um ástand annarra lífvera því skúmur er ofarlega í fæðukeðjunni og gefur ástand hans vísbendingar um stöðu neðar í keðjunni.

Hrafnhildur Hannesdóttir hlýtur 800 þúsund króna styrk til að endurgera sögulegar ljósmyndir af jöklum í Austur-Skaftafellssýslu. Markmið verkefnisins, sem er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum, er að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla á Íslandi sem og annars staðar á jörðinni. Endurgerðarljósmyndun er ein áhrifamesta miðlunaraðferðin til þess að vekja athygli á hlýnun jarðar og bráðnun jökla. Þetta verkefni er mikilvægur liður í því að skrásetja þær breytingar sem hafa orðið á suðurhluta Vatnajökuls og varðveita og gera aðgengilegar ljósmyndir allt frá aldamótunum 1900 og munu vera mikilvæg viðbót við ofangreindan fræðsluvef um jökla- og loftslagsbreytingar.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Kristín Svavarsdóttir hljóta 750 þúsund króna styrk til rannsóknar á hlutverki loðvíðis (Salix lanata) í íslenskum vistkerfum. Víðir er eftirsótt beitarplanta og nánast alls staðar þar sem sauðfé gengur að ráði heldur beitin víðirunnum niðri. Þar sem búfjárbeit er aflétt spretta stundum víðirunnar upp mjög fljótlega og þá væntanlega af gömlum plöntum sem hjarað hafa í sverðinum en haldið þannig niðri af beit að þær hafa verið lítt sýnilegar. Eftir að búfjárbeit var aflétt í Skaftafelli hafa gulvíðir og loðvíðir breiðst þar mjög út, m.a. í gömlum túnum á Skaftafellsheiðinni.

Þórður Sævar Jónsson hlýtur 750 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Ævintýri og líf heima og í Kanada – endurminningar Guðjóns R. Sigurssonar. Guðjón fæddist á Hömrum í Mýrarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu. Nokkrum vikum eftir að hann fæddist fóru foreldrar hans til Vesturheims með þrjú börn sín, en skildu hann eftir í fóstri hjá ömmu sinni og afa á Odda á Mýrum. Síðar dvaldi hann hjá Ingunni og Einari á Brunnhól á Mýrum, þar sem hann ólst að mestu leyti upp. Tvítugur flutti hann til Kanada þar sem hann bjó í 37 ár þar til fegurð heimahaganna dró hann aftur til Íslands 1961. Guðjón færði sögu sína til bókar árið 1981 og fékk Skjalasafn Austur-Skaftafellssýslu handritið að gjöf fyrir rúmum tíu árum. Markmið verkefnisins er að koma handritinu á rafrænt form og undirbúa útgáfu þess.

Þórbergssetur hlýtur einnig 750 þúsund króna styrk til rannsókna og miðlunar á ævi og störfum Eymundar Jónssonar og Halldóru Stefánsdóttur í Dilksnesi í Nesjum. Saga þeirra er afar áhugaverð en bakgrunnur þeirra var ólíkur og ekki var sjálfgefið að þau mættu eigast og gætu gifst. Hún var dóttir alþingismannsins í héraðinu, hann sonur vinnukonu og fátækrar ekkju. Markmið verkefnis er að ná saman fjölbreyttum upplýsingum um ævi þeirra og störf og miðla þeim á ýmsan hátt svo sem með sýningum, fyrirlestrum, útgáfu, leikþáttum, vísnakvöldum eða margmiðlun.

Náttúrustofa Suðausturlands hlýtur 600 þúsund króna styrk fyrir verkefnið Mælavörður á Breiðamerkursandi. Allt frá fyrri hluta 20. aldar og fram til loka fyrsta áratugar 21. aldar, hlóðu jöklamælingamenn ár hvert vörður til þess að marka stöðu jökuljaðars Breiðamerkurjökuls hverju sinni. Þessar mælilínur og vörðurnar eru eini vitnisburðurinn um framlag ábúenda í héraðinu, til vísindalegrar gagnaöflunar, um hop jökulsins. Flestar vörðurnar, nema þær allra yngstu, eru nú fallnar og staðsetning margra gleymdar. Til þess að forða því að mælivörðurnar gleymist er ætlunin að staðsetja þær sem finnast með GPS tæki og skrá með hliðsjón af mælingum og athugasemdum sem Kvískerjabræður og Suðursveitungar skráðu hverju sinni. Síðar meir er ætlunin að gera þessari sögu skil í Skaftfellingi eða Jökli.

Marta Sigurðardóttir hlýtur 500 þúsund króna styrk til verkefnisins Handverk og hannyrðir Kvískerjasystra. Tekið verður saman rit um handverk og hannyrðir þeirra systra í rituðu sem og myndrænu máli. Fjallað verður meðal annars um hvernig ullin var unnin, hvernig hún var lituð og unnir úr henni hinir ýmsu hlutir sem og fatnaður á mismunandi hátt. Einnig verður fjallað ýtarlega um lítt þekkta prjónaaðferð á dúkum, bæði í máli og myndum.

Kvískerjasjóður hefur sannað gildi sitt
Hlutverk Kvískerjasjóðs er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í Austur-Skaftafellssýslu. Frá upphafi hefur sjóðurinn stutt við margvísleg metnaðarfull verkefni sem bæði eru mikilvægt framlag inn í vísindaheiminn en ekki síður munu þau geta gagnast til að styrkja framþróun byggðar í Austur-Skaftafellssýslu.

Það er mat sjóðsstjórnar að Kvískerjasjóður hafi sannað gildi sitt, verið hvati að margvíslegum rannsóknum í Austur-Skaftafellssýslu og þannig stuðlað að framhaldi þess umfangsmikla vísindastarfs systkinanna á Kvískerjum sem honum var ætlað við stofnun 2003.

Fyrri greinÁsa Berglind ráðin verkefnastjóri
Næsta greinAllt of seinn á hótelið á 164 km/klst hraða