Sjö undir áhrifum fíkniefna við akstur

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Undanfarnar tvær vikur hafa 47 ökumenn verið kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Einn þeirra var tekinn á 91 km/klst hraða innanbæjar á Selfossi og er auk þess grunaður um að vera undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

Við leit í bifreið hans fundust ætluð fíkniefni.

Annar var mældur á 150 km/klst hraða á Hellisheiði og reyndist hann sænskur ríkisborgari. Maðurinn gekk frá sektargreiðslunni á vettvangi auk þess sem hann var sviptur ökuréttindum í einn mánuð. Þrír aðrir ökumenn mældust á meiri hraða en 130 km/klst.

Auk hins fyrrnefnda voru sex aðrir ökumenn stöðvaðir, grunaðir um fíkniefnaakstur. Fimm þeirra voru á ferðinni á eða við Selfoss. Fjórir voru stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur.

Fjórir voru kærðir fyrir að nota farsíma samhliða akstri bifreiða sinna. Þeir sitja uppi með 40 þúsund króna sekt hver fyrir brot sín. Tveir voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur og situr hvor um sig uppi með 20 þúsund króna sekt.

Skráningarnúmer voru tekin af fjórum ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni. Sekt við því að tryggja ekki ökutæki lögboðinni ökutækjatryggingu er 50 þúsund krónur.

Fyrri greinVegleg gjöf frá SSK til HSU
Næsta grein„Óþreytandi í boðskap sínum, fræðslu og hvatningu“