Sjö fluttir með þyrlum á sjúkrahús

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fólkið sem var í smárútunni sem valt á Skeiðarársandi í kvöld var flutt með tveimur þyrlum á sjúkrahús í Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi voru allir þeir slösuðu með meðvitund, en einhverjir þeirra eru beinbrotnir.

Fyrri þyrlan fór í loftið frá slysstaðnum laust fyrir klukkan 21 með fjóra slasaða og seinni þyrlan fór af vettvangi með þrjá til viðbótar 40 mínútum síðar.

Sjúkraflugvél frá Akureyri lenti á Höfn í Hornafirði og var tilbúin til flutnings en ekki þótti skynsamlegt að aka með þá slösuðu 130 km leið frá vettvangi til Hafnar. Sjúkraflugvélin gat hvorki lent á Fagurhólsmýri eða í Skaftafelli þar sem flugvellirnir þar eru ekki með bundnu slitlagi og henta því ekki fyrir flugvél af þessu tagi.

Rannsóknarvinna lögreglu á vettvangi er enn í gangi og má búast við umferðartöfum á staðnum.