Sjötíu minkar veiddir á síðasta ári í Árborg

„Staðreyndirnar eru þær að hér í Árborg hefur í mörg ár verið samningur við minkabana þar sem borgað er meira en þau skottaverðlaun sem þessi minkabanar fá,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar.

Á dögunum gagnrýndi Jóhannes Þór Ólafsson hjá Meindýravörnum Suðurlands yfirvöld fyrir að tíma ekki að borga fyrir eyðingu minks, hvort sem það væri í Árborg eða annarsstaðar á Suðurlandi.

Ásta er ekki sammála þessu. „Á síðasta tímabili greiddi Árborg alls 462 þúsund fyrir veiðar á mink, bæði til þess aðila sem er með samning um veiðar fyrir sveitarfélagið og til þeirra sem eru að ná einum og einum mink yfir árið. Alls voru veiddir sjötíu minkar og nam endurgreiðslan sem sveitarfélagið fær frá ríkinu 138 þúsund krónur. Framlag ríkisins til eyðingar á mink og ref hefur farið minnkandi síðustu ár,“ segir Ásta.

Feðgarnir Haraldur Ólason og Emil Ingi Haraldsson eru með samning við Sveitarfélagið Árborg um minkaveiði innan marka sveitarfélagsins, auk þess sem þeir sjá líka um kanínu og refaveiðar.

Fyrri greinKrefur ráðherra um svör varðandi Grynnslin
Næsta greinFundu 40 grömm af kannabislaufum