Sjóðheitir sjúkraflutningamenn á dagatali

Eftir mikla eftirvæntingu Sunnlendinga er árlegt dagatal Félags sjúkraflutningamanna í Árnessýslu loksins komið út.

Dagatal sjúkraflutningamanna hefur alltaf vakið mikla athygli en það er selt í takmörkuðu upplagi til styrktar fjölskyldum langveikra barna á Suðurlandi. Sjúkraflutningamennirnir hafa haft þann háttinn á að heimsækja eitt veikt barn á aðfangadag og færa fjölskyldunni styrkinn.

Í ár svöruðu sjúkraflutningamennirnir óskum aðdáenda sinna með því að fletta sig klæðum og má sjá þá sveifla sér hálfnakta í trjám í gervi Tarzan og Jane.

Dagatalið kostar litlar 1.000 krónur og er komið í sölu á Hlöllabátum á Selfossi. Einnig má nálgast dagatöl hjá sjúkraflutningamönnunum sjálfum. Um aðra helgi verður dagatalið svo selt í anddyri Kjarnans á Selfossi.