Fylgi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi dalar talsvert á milli mánaða í Þjóðarpúlsi Gallup en flokkurinn er þrátt fyrir það áfram með mesta fylgið í kjördæminu.
Sjálfstæðisflokkurinn er með 25,3 prósenta fylgi í kjördæminu en fylgi flokksins var 29,4 prósent í apríl. Samfylkingin eykur við fylgi sitt, það er nú 24,1 prósent en var 22,7 prósent í apríl. Fylgi beggja flokka er mun meira en í síðustu Alþingiskosningum.
Gallup fékk 569 svör frá kjósendum í Suðurkjördæmi í þjóðarpúlsi sem tekinn var allan maímánuð og birtir sunnlenska.is niðurstöðurnar úr Suðurkjördæmi í samstarfi við RÚV. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallups.
Fylgi Flokks fólksins heldur áfram að dala í Suðurkjördæmi. Það er 12,9 prósent nú en Flokkur fólksins fékk 20,0 prósent í kosningunum í nóvember. Suðurkjördæmi er áfram lang sterkasta vígi Flokks fólksins á landinu.
Miðflokkurinn sækir í sig veðrið í kjördæminu og er með 12,5 prósent, Framsókn dalar lítillega og er með 10,4 prósent og fylgi Viðreisnar er svipað og áður, 9,3 prósent.
Fylgi annarra flokkar er svipað og áður; Sósíalistar eru með 2,0 prósent, Vinstri græn 1,6 prósent, Píratar 1,3 prósent og aðrir flokkar 0,7 prósent.
Samfylkingin fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn
Yrðu þetta niðurstöður þingkosninga í dag myndi Flokkur fólksins missa einn kjördæmakjörinn þingmann og Sjálfstæðisflokkurinn bæta við sig einum. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 3 þingmenn, Samfylkingin 2, Flokkur fólksins 1, Miðflokkurinn 1, Framsókn 1 og Viðreisn 1.

