Sjálfboðaliðar taka höndum saman

Í gær og í dag er unnið að því að leggja út dúkinn sem síðan myndar þakið á Hamarshöllinni, loftborna íþróttahúsinu í Gufudal í Hveragerði.

Fjölda sjálfboðaliða úr bæjarfélaginu dreif að á verkstað í gær og var mæting þeirra framar öllum vonum. Verkefnið fólst í að draga út hallardúkinn og að koma honum á rétta staði en hann er níðþungur og því þarf fjölmenni til að færa hann úr stað.

„Það var einstök sjón að verða vitni að því þegar tugir einstaklinga röðuðu sér á kantinn og hlupu síðan með dúkinn á fullri ferð yfir völlinn. Smám saman færðist hvítur litur yfir svæðið sem á allra næstu dögum mun breytast í eitt glæsilegasta íþróttasvæði landsins,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Þegar dúkurinn er kominn í réttar skorður þarf að bolta saman hlutana og var sjálfboðaliðahópurinn orðinn ótrúlega sjóaður í þeim vinnubrögðum þegar vinnu lauk á tíunda tímanum í gærkvöldi. Haft var á orði að stemningin hefði verið eins og á góðum réttardegi, fjör, gleði og hlátrasköllin glumdu um allt svæðið. Flestir hafa hug á að mæta aftur í dag kl. 17 en þá verður klárað að setja upp dúkinn.

„Þeir erlendu aðilar sem hafa yfirumsjón með verkinu eru yfir sig hrifnir og hafa sjaldan ef nokkurn tíma orðið vitni að viðlíka viðbrögðum hjá bæjarbúum þar sem þessi hús hafa verið sett upp. Hér í Hveragerði erum við afar stolt af þeim samtakamætti sem við upplifðum í gær og greinilegt að þeir eru margir sem bíða í ofvæni eftir því að við öll getum séð afrakstur erfiðisins þegar húsið verður fyllt af lofti og íþróttahúsið verður loksins staðreynd,“ sagði Aldís ennfremur.

Í dag er síðari dagur sjálfboðaliðastarfsins. Þeir sem hafa hug á að mæta í dag koma á svæðið kl. 17 og unnið verður frameftir þar til allt húsið verður komið á sinn stað.

„Vinnuvettlingar eru ágætir og sólgleraugu nauðsyn enda endurkastið frá dúknum ansi mikið í blíðunni hér fyrir austan fjall,“ bætti Aldís við að lokum.

Fyrri greinSelfoss tapaði fyrir toppliðinu
Næsta greinBúðartunguvirkjun til rannsóknar