Sjálfboðaliðar komnir á kreik

Sjálfboðaliðar frá samtökunum Þórsmörk Trail Volunteers eru meðal vorboðanna hjá Skógrækt ríkisins ár hvert og undanfarna daga hefur fyrsti sjálfboðaliðahópur sumarsins verið að störfum við Hjálparfoss í Þjórsárdal.

Fram undan eru viðhalds- og uppbyggingarverkefni á Þórsmörk og Laugaveginum, gönguleiðinni upp í Landmannalaugar.

Með hratt vaxandi ferðamannastraumi hefur álag aukist mjög á ýmsa viðkvæma ferðamannastaði og er Hjálparfoss í Þjórsárdal gott dæmi um það. Ástand svæðisins hafði versnað mjög undanfarin ár og fengust styrkir frá ríkisstjórn Íslands síðasta vor til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum.

Á liðnu hausti var ráðist í miklar endurbætur, stígar endurbættir, smíðaðar tröppur og pallar. Verkefnið var unnið í góðu samstarfi við Skeiða- og Gnúpverjahrepp.

Eftir slíkar framkvæmdir er nauðsynlegt að huga að gróðri og laga rask. Fyrsti sjálfboðaliðahópur Þórsmörk Trail Volunteers í sumar hefur unnið við það undanfarna daga að leggja gróðurtorfur með fram stígum við Hjálparfoss, græða upp eldri stíga, sá í jaðra og dreifa áburði til að flýta því að sárin grói. Einnig var gert við borð og ýmsu öðru viðhaldi á svæðinu sinnt.

Chas Goemans, verkefnisstjóri stígagerðar á Þórsmörk, hælir verktakanum sem nýlega lauk framkvæmdum við Hjálparfoss og segir nýju aðstöðuna vel heppnaða.

Nánar má lesa um Þórsmörk Trail Volunteers á heimasíðu Skógræktarinnar.

Fyrri greinFáeinir hafa leyfi til sölu kartöfluútsæðis
Næsta greinUm 1.000 manns tóku þátt í hátíðarhöldunum á Selfossi