Sjálfboðaliðar í náttúruvernd fagna afmæli

Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd eru 25 ára í ár. Haldið verður upp á afmælið um næstu helgi á Þingvöllum og í Alviðru.

Í aldarfjórðung hafa Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd (SJÁ) staðið fyrir vinnuferðum á ótal staði og virkjað sjálfboðaliða til þess að láta hendur standa fram úr ermum við að vernda náttúru Íslands og gera hana aðgengilegri fyrir almenning að njóta. Farnar hafa verið 160 vinnuferðir á 80 staði víða um land og unnin þar rúmlega 5 þúsund dagsverk úti í náttúrunni.

Á laugardag munu samtökin halda upp á afmælið með vinnuferð í Þingvallaþjóðgarð. Mæting er kl. 10 við þjónustumiðstöð við tjaldstæðið.

Opnuð verður forn þjóðleið við Klukkustíg. Vinnan verður aðallega að klippa og saga birki sem hefur komið sér fyrir í slóðinni eftir að menn hættu að nýta hana og einnig verða settar niður stikur.

Þörf er á mörgum vinnufúsum höndum! Gott að taka með klippur eða sög. Vinnu lýkur á Þingvöllum fyrir kl. 17.

Kl. 18 sama dag verður hápunktur afmælishátíðarinnar í Alviðru, fræðslusetri Landverndar undir Ingólfsfjalli. Þar verður borðað, haldnar hátíðarræður og rifjaðar upp sögur úr starfi samtakanna í 25 ár. Ljósmyndir, vinnuskýrslur og önnur söguleg gögn verða til sýnis. Fólk getur valið um að fara heim um kvöldið eða gista í svefnpokaaðstöðu í Alviðru.

Á sunnudag verður morgunspjall í Alviðru yfir morgunmat. Síðan verður unnið að lagfæringum á fallegri gönguleið meðfram Soginu í Öndverðanesi. Að þeim verkum og frágangi loknum verður farið heim.

Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku ekki síðar en á fimmtudag, vegna undirbúnings. Hægt er að mæta bara á Þingvöll eða bara í Alviðru – en æskilegast að taka allan pakkann.

Hafið samband við Þorvald í síma 895 6841 eða valdurorn@simnet.is eða sja.is@simnet.is.