Sjaldséður þokubogi í Sandvíkurhreppnum

Þokubogi, eða hvítur regnbogi. Myndin er tekin á Kaldaðarnesvegi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það hvíldi þoka yfir Selfossbæ og nágrenni í morgun sem skapaði dulúðlega birtu í dagrenningunni.

Þegar sólin reis ofar í austri myndaðist sjaldséður þokubogi á vesturhimninum.

Þokubogi er að sumu leyti eins og regnbogi en þar sem vatnsdroparnir í þokunni eru örsmáir verður ljósbrotið öðruvísi sem leiðir til þess að þokubogar virðast litlausir.

Þar sem sést endurkast af hvítaljósinu eru þokubogar einnig þekktir sem hvítir regnbogar eða draugaregnbogar.