Sjaldséður hvítur þröstur

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi má finna margt fallegt, eins og t.d. þennan hvíta þröst. Ljósmynd/Loftur Erlingsson

Hvítur skógarþröstur sást nýlega í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, fuglaáhugamönnum til mikillar gleði. Einn af þeim sem náði að festa þröstinn á filmu var Loftur Erlingsson í Tröð, en hann hefur alla tíð haft áhuga á fuglum og horfir mikið eftir þeim þegar hann er á ferðinni.

„Þannig var að nágrannakona mín, Hrafnhildur Ágústsdóttir á Stöðulfelli, setti mynd á Facebook í hádeginu á laugardaginn um Verslunarmannahelgina af hvítum smáfugli sem hún var að velta fyrir sér hvað gæti verið. Ég hringdi strax í hana og fékk leyfi til að koma í garðinn hjá henni og freista þess að ná myndum af þessum furðufugli,“ segir Loftur í samtali við sunnlenska.is.

Ljósmynd/Loftur Erlingsson

Loftur segir að það hafi verið mikið rok þennan dag og fuglinn leitað í skjól. „Þegar ég kom að Stöðulfelli og inn í garð, flögraði fuglinn inn í skjólbelti sem er á milli Stöðulfells og Þrándarholts. Ég laumaði mér í gegnum það og sá hann fljótlega gægjast út úr skjólbeltinu hlémegin svo ég settist og beið smá stund þar til hann kom betur fram og fór að gæða sér á þessum rauðu berjum og þá náði ég þessum myndum af honum,“ segir Loftur sem festi kaup á 600mm aðdráttarlinsu fyrir þremur árum. „Ég hef verið að æfa mig að taka fuglamyndir af og til síðan og þetta er allt að koma.“

Ljósmynd/Loftur Erlingsson

„Ég þóttist sjá að þarna væri kominn skógarþrastarungi – albínói að ég taldi en spekingarnir eru ekki alveg sammála um hvort hann sé albínói eða bara með litagalla. Skiptir svo sem ekki máli – en fallegur er hann allavega og óvenjulegur,“ segir Loftur að lokum.

Fyrri greinAnnað útkall á Fimmvörðuhálsi
Næsta greinSkjálftar á Heiðinni há