Sjaldgæfur flækingur í Víkurfjöru

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína í Víkurfjöru um helgina til þess að skoða sjaldgæfa höfrungategund sem þar rak á land.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, sagði í samtali við sunnlenska.is að af myndum að dæma væri um að ræða stökkul (l. Tursiops truncatus).

„Hann telst til sjaldgæfra flækingstegunda hér við land en er algengur sunnar í N-Atlantshafi og reyndar allt í kringum jörðina á hitabeltis- og tempruðum hafsvæðum,” segir Gísli.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar munu sækja hræið í dag og verður það krufið og rannsakað.

Í bókinni Íslensk spendýr sem kom út árið 2004 segir að síðan reglubundnar hvalatalningar hófust árið 1987 hafi stökkull aðeins sést fyrir vissu þrisvar sinnum á íslensku hafsvæði.

Myndir frá Jónasi í Fagradal má sjá í myndasafni hér til hægri.

Attached files

Fyrri greinMeð verkefni í Noregi
Næsta greinSparkaði í höfuð lögreglumanns