Sjaldgæfir frændur saman á mynd


Hnúðsvanir eru sjaldséðir á Íslandi – og það er magnað að ná honum á mynd með svartsvani. Ljósmynd/Birna Viðarsdóttir

„Það voru tveir svartir svanir hérna fyrir þremur árum. Ég frétti af þessum í Skaftártungu, einn svartur og svo þessi hnúðsvanur sem er víst mjög sjaldgæfur flækingur,“ segir Birna Viðarsdóttir á Norður-Hvoli í Mýrdal.

Birna tók þessa skemmtilegu mynd í Skaftártungu síðastliðinn föstudag.

„Sá svarti er með rauðan hring á annari löppinni, svo hann er ekki annar þeirra sem var hérna 2015,“ bætir Birna við.

Að sögn Jóhanns Óla Hilmarssonar, fuglafræðings á Stokkseyri, er þetta aðeins í ellefta skiptið sem hnúðsvanur sést á Íslandi en náttúruleg heimkynni þeirra eru á tempruðum slóðum í Evrópu og Vestur-Asíu.

„Það var lítill stofn á Reykjavíkurtjörn og víðar á Innnesjum frá 1958-1977 og voru upphaflegu fuglarnir vinabæjargjöf frá Hamborg. Hnúðsvanir eru oft hafðir til skrauts á tjörnum og vötnum og hafa afkomendur þeirra breiðst út utan náttúrulegra heimkynna sinna, t.d. í Norður-Ameríku og Japan. Hnúðsvanurinn er þjóðarfugl Danmerkur og hnúðsvanirnir á Thames eru eign Bretadrottningar,“ segir Jóhann Óli.

Svartsvanurinn er áströlsk tegund og hér á landi hafa sést pör og stakir fuglar á hverju sumri undanfarin ár, en þeir koma hingað með álftum frá vetrarstöðvunum. Að sögn Jóhanns Óla er ekki vitað til að þeir hafi orpið á Íslandi.

„Svartsvanurinn var fluttur sem skrautfugl til Evrópu og eru nú sjálfbærir stofnar á Bretlandseyjum, í Hollandi, Póllandi og sennilega eitthvað í N-Ameríku. Svartsvanur er harður af sér og hafa menn áhyggjur af, að hann kunni að hafa áhrif á og jafnvel útrýma staðbundnu hnúðsvanavarpi í Bretlandi,“ bætir Jóhann Óli við.