Sirra Sigrún fékk styrk úr Listasjóði Guðmundu

Listamaðurinn Erró veitti í dag Selfyssingnum Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur verðlaunafé og viðurkenningu úr Listasjóði Guðmundu S. Kristinsdóttur, fyrir framlag hennar á sviði myndlistar.

Afhendingin fór fram við opnun á sýningunni Tilurð Errós í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi.

Erró stofnaði sjóðinn til minningar um móðursystur sína, Guðmundu og er honum ætlað að efla og styrkja listsköpun kvenna. Þetta er í sextánda skipti sem styrkur er veittur úr sjóðnum en framlagið rennur til listakonu sem þykir skara fram úr. Stjórn sjóðsins skipa safnstjórar Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, Listasafns Íslands, Halldór Björn Runólfsson og Listasafnsins á Akureyri, Hlynur Hallsson.

Markmiðið er að styrkja listakonur með því að veita framlag til viðurkenningar og eflingar á listsköpun þeirra. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun í vörslu borgarsjóðs Reykjavíkur. Umsjón með sjóðnum hafa Reykjavíkurborg og Errósafnið.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir lauk námi frá Listaháskóla Íslands 2001, nam listfræði við Háskóla Íslands einn vetur og lauk meistaranámi frá School of Visual Arts í New York 2013. Hún er í hópi áhrifamikilla listamanna hér á landi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga, bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Sirra er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt fjölda sýninga og listviðburða með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega sem listamenn sem vert er að fylgjast með á komandi árum.

Þá var sýning hennar, Flatland, í Listasafni Reykjavíkur árið 2014 mörgum minnisstæð. Það var því einróma álit dómnefndar Listasjóðs Guðmundu S. Kristinsdóttur að Sirra Sigrún skuli að þessu sinni hljóta viðurkenningu úr sjóðnum.

Fyrri greinÁsmundur Sverrir hættir hjá Fræðslunetinu
Næsta greinÖruggt hjá Selfyssingum gegn ÍR