Sinueldur í Hellisskógi

Tilkynning barst til Brunavarna Árnessýslu um sinueld í Hellisskógi við Selfoss um klukkan níu í gærkvöldi. Hellisskógur liggur á bökkum Ölfusár norðan við Selfoss.

Mikil vinna hefur verið lögð í ræktun á svæðinu af Skógræktarfélagi Selfoss frá árinu 1986 og spannar skógurinn nú um 72 hektara þar sem yfir tvöhundruð þúsund plöntum hefur verið plantað. Það er því ljóst að ef til yfirgripsmikils gróðurelds kæmi gæti tjón orðið ómetanlegt.

Ekki er ljóst á þessari stundu út frá hverju kviknaði en ekki er ólíklegt að það hafi verið út frá sígarettu. Nokkrar tilkynningar um eldinn bárust Neyðarlínu og þar með ein frá flugmanni er flaug yfir. Flugmaðurinn hafði góða yfirsýn úr lofti og gat leiðbeint slökkviliðsmönnum að eldinum.

Gras er orðið nokkuð gróið í sverðinum sem hægir á útbreiðslu eldsins en allmikil sina er þó enn í náttúrunni og því útbreiðsluhætta elds allnokkur. Nái eldurinn að læsa sig í barrtré er hætta á kraftmiklum bruna og því afar mikilvægt að fólk fari varlega með eld.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Landi og bruggtæki gerð upptæk
Næsta greinSlapp með rifbeinsbrot eftir veltu niður Reynisfjall