Sinueldar ógnuðu húsum

Eldar kviknuðu í sinu nálægt Galtalækjarskógi og skammt vestan við Reykholt í Biskupstungum í dag. Í báðum tilvikum voru mannvirki í hættu.

Eldur kviknaði í sinu við sumarbústaðahverfi skammt frá Galtalækjarskógi í dag og var eldurinn kominn alveg upp að einu húsi og mjög nálægt öðru þegar slökkviliðið á Hellu kom á vettvang.

Húsin voru varin og sinueldurinn slökktur í kjölfarið en sumarbústaðaeigendur og aðrir sem vettlingi gátu valdið höfðu þá barist við eldinn með verkfærum og garðslöngum. Um þrír hektarar brunnu en talið er að neisti frá grilli hafi kveikt eldinn.

Klukkan rúmlega fimm í dag bárust Brunavörnum Árnessýslu síðan boð um eld í sinu í sumarbústaðalandi á Reykjavöllum skammt vestan við Reykholt. Eldurinn var ekki á stóru svæði en hann barst hratt nálægt húsum á svæðinu. Slökkviliðið í Reykholti fór á vettvang og hafði eldurinn verið slökktur um það bil tuttugu mínútum síðar.

Fyrri greinHafna lokun slökkvistöðvarinnar í Reykholti
Næsta greinBeltin björguðu er bílstjórinn sofnaði