Sindri Pálma farinn frá Esbjerg

Selfyssingurinn Sindri Pálmason er á förum frá danska knattspyrnufélaginu Esbjerg. Sindri gerði þriggja ára samning við Esbjerg í byrjun árs 2014.

Sindri hefur spilað með unglingaliði Esbjerg en þessi 19 ára gamli leikmaður er nú á förum þar sem hann sér ekki fram á að fá tækifæri með aðalliðinu.

Fótbolti.net greinir frá þessu.

„Það er leiðinlegt að ég hafi ekki náð markmiði mínu um að spila í úrvalsdeildinni með Esbjerg en ég hef lært mikið í Danmörku,“ sagði Sindri við heimasíðu Esbjerg. „Ég hef lært málið og kynnst annarri menningu. Ég er þroskaðari og hef lært að standa á eigin fótum.“

Sindri mun flytja heim til Íslands í vikunni en hann lék þrjá leiki með Selfyssingum í 1. deildinni sumarið 2013 áður en hann gekk í raðir Esbjerg.

Fyrri greinÍbúum fjölgar aftur í Ölfusinu
Næsta greinSelfyssingar sannfærandi – Tryggðu sér oddaleik