Síminn með 4G í Hveragerði

Hvergerðingar eru komnir í blússandi 4G samband hjá Símanum. Þessi fjórða kynslóð farsímasenda eflir sambandið til muna, þar sem hraðinn um netið eykst.

Auk þess leyfir tæknin áhorf í háskerpu og niðurhal kvikmynda á mettíma.

4G farsímanet Símans nær nú til ríflega 72% landsmanna. Það hefur stækkað ört á árinu eða fimmfaldast litið til fjölda senda. Þá eru sífellt fleiri tilbúnir fyrir 4G tæknina.

„Við sjáum að 4G snjalltækjum hefur fjölgað hratt og vel í höndum landsmanna. Í ársbyrjun 2013 voru aðeins 2% viðskiptavina með slík en eru nú tæplega fimmtungur. Þá styðja 85 af hverjum hundrað seldum símtækjum í verslunum 4G tæknina þessa stundina. Síminn hefur byggt upp í takti við þessa þróun og er kominn með þessa fjórðu kynslóð farsímasenda í alla landshluta,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

Frá því í vor hafa 4G sendar til að mynda verið settir upp víða um land, m.a. á Selfossi og í Vestmannaeyjum. 4G samband er nú einnig komið upp í helstu sumarbústaðarlöndum landsmanna og þar sem ferðamenn halda sig helst. Nú með Hveragerði voru 4G sendar settir upp á Reyðarfirði, Höfn í Hornafirði og í Fnjóskadal.

„Við hjá Símanum erum hvergi hætt og munum enn bæta 4G sambandið á árinu. 4G kerfi Símans vex og vex og við erum afar ánægð með að geta nú boðið þjónustuna í Hveragerði,“ sagði Gunnhildur ennfremur.

Fyrri greinTekur fimm mánuði með tilheyrandi lokunum
Næsta greinStyrmir bætti eigið met