Síminn eflir sambandið á Suðurlandi

Nítján 3G sendar af hraðvirkustu gerð hafa verið settir upp hjá Símanum. Þessir hraðvirku sendar hafa meðal annars verið settir upp í Grímsnesi, Biskupstungum, Laugarvatni og á Selfossi.

Sendarnir ná 42 Mb/s og eru tvöfalt hraðvirkari en hröðustu forverarnir hjá Símanum. 3G dreifikerfi Símans nær því orðið hraða sem í þessari miklu tækniþróun telst til 3.75G.

„Við erum mjög stolt af þessari þróun og enn sterkara dreifikerfi Símans,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans.

„Að komast á netið í gegnum farsímasenda, eins og gert er í gegnum 3G og 4G tæknina er frábær viðbót við það að tengjast því í gegnum fastanet Símans – sem byggist á ADSL og Ljósneti. Og á stöðum þar sem flutningsgeta fastlínunnar er takmörkuð, sem dæmi eru um í einstaka sveitum landsins, getur 3G/4G kerfið leyst margan vandann,“ segir Gunnhildur Arna.

Að sögn hennar lítur Síminn á fastanetið sem mikilvægasta burðarnetið í fjarskiptaþjónustu landsmanna. Farsímanetin, 3G/4G, skapi hins vegar afar mikilvægan möguleika á því að vera í sambandi nánast hvar sem er.

„Kosturinn við fastanetið er sá að þar gengur viðskiptavinurinn að hraða tengingarinnar vísum. Það er ólíkt því sem er þegar vafrað er um netið á farsímanetum, því þá deila notendurnir hraðanum. Fastlínan hentar því almennt heimilum betur en 3G/4G fleytir þeim á netið þar sem þeir standa og er því frábær tækni,“ segir hún.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Stungið á hjólbarða í Hveragerði
Næsta greinÞrjú HSK met á Stórmóti Gogga galvaska