Farsímanotkun nemenda í Fjölbrautaskóla Suðurlands var tekin til lausnamiðaðrar umræðu á síðustu önn. Nú á vorönn er boðið upp á nýjung fyrir nemendur, sem kallast símahótel.
Í skólareglum FSu segir að símanotkun nemenda sé „óheimil nema í tengslum við úrvinnslu verkefna í samráði við kennara.”
Á fyrsta starfsmannafundi annarinnar lagði Soffía Sveinsdóttir, skólameistari, áherslu á að skerpt væri á þessari reglu, frekar en að herða hana. Því hefur verið ákveðið að bjóða upp á þá nýjung á þessari önn að nemendur geta lagt og geymt síma sína í þar til gerðum vösum á vegg hverrar kennslustofu sem kallast símahótel.
Kennsla á vorönn hófst þann 8. janúar og að þessu sinni er heildar nemendafjöldi skólans tæplega 1.100 nemendur. Af þeim stunda 950 samfellt nám í dagskóla.

