Silja stefnir á 2. sætið

Silja Dögg Gunnarsdóttir, skjalastjóri og aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar HS Orku í Reykjanesbæ, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í vor.

Silja Dögg er 38 ára gömul, þriggja barna móðir, búsett í Innri-Njarðvík og gift Þresti Sigmundssyni.

Hún er sagnfræðingur að mennt og hefur m.a. starfað sem blaðamaður, ritstjóri, lögreglumaður, kennari og rekið eigið fyrirtæki. Silja Dögg tók sæti sem varamaður í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vorið 2010 og er í stjórn atvinnu- og hafnaráðs Reykjanesbæjar.

Þá hefur hún setið í stjórn Framsóknarfélags Reykjanesbæjar síðan 2010 og á sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins og í landstjórn Landssambands framsóknarkvenna.