Sigurveig ráðin fjármálastjóri Landstólpa

Sigurveig Sigurðardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Sigurveig Sigurðardóttir, viðskiptastjóri Íslandsbanka á Selfossi, hefur verið ráðin fjármálastjóri Landstólpa og hefur þar störf 1. september næstkomandi.

Sigurveig útskrifaðist með BS-próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1998, var þá ráðin þjónustustjóri Íslandsbanka á Selfossi og síðan viðskiptastjóri 2002.

„Ég hef í störfum fyrir bankann kynnst fjölda fólks og fyrirtækja í öllum atvinnugreinum á svæðinu, þar á meðal Landstólpa. Þegar mér bauðst þar starf var óþarfi að hugsa sig lengi um enda Landstólpi spennandi og framsækið fyrirtæki. Eigendur þess eru harðduglegir frumkvöðlar með mörg járn í eldinum sem ég hlakka til að starfa með. Meira að segja hlakka ég til þeirrar tilbreytingar að aka daglega í 20 mínútur til og frá vinnustaðnum í stað í stað þess að sækja vinnu í nokkur hundruð metra fjarlægð frá heimilinu,“ segir Sigurveig í tilkynningu frá Landstólpa.

Gott að fá ferska, utanaðkomandi sýn
Landstólpi er með aðsetur sitt í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, með fjölbreytta starfsemi og þjónustu sem nær til landsins alls. Starfsmenn eru um 40 talsins og um 20 verktakar að auki. Landstólpi velti um 2,6 milljörðum króna á árinu 2022, þar af var um helmingur veltunnar á mannvirkjasviði, einu af sex sviðum fyrirtækisins. Og það er einmitt í innra skipulagi sem stofnandi og framkvæmdastjóri Landstólpa, Arnar Bjarni Eiríksson, sér fyrir sér að nýi fjármálastjórinn láti meðal annars til sín taka.

„Sigurveig er grandvör og traust og ég vænti mikils af þekkingu hennar og reynslu, til dæmis við að skerpa á áherslum starfsviðanna hjá okkur og straumlínulaga enn frekar einstaka þætti og reksturinn í heild. Alltaf er gott að fá ferska, utanaðkomandi sýn á uppbyggingu fyrirtækis og starfsemi til að þróa það markvisst, vel og örugglega,“ segir Arnar Bjarni.

Vaxið og dafnað í alhliða verktakastarfsemi
Landstólpi var stofnaður árið 2000 og hefur vaxið og dafnað sem alhliða verktaki í mannvirkjagerð og með fjölþætta sölu- og þjónustustarfsemi á mörgum sviðum. Fyrirtækið rekur verslun og litla vélsmiðju í Gunnbjarnarholti og verslanir í Kópavogi og á Egilsstöðum. Landstólpi flytur inn vélar, tæki og tól fyrir landbúnað og fleiri atvinnugreinar, dýrafóður og þjónustu- og rekstrarvörur af ýmsu tagi.

Stærstu verkefni mannvirkjasviðs Landstólpa í ár eru byggingar fyrir fiskeldi og spennistöðvar fyrir Landsnet. Fyrirtækið hefur unnið mikið fyrir Eimskip undanfarin ár og í haust er á dagskrá að hefja byggingaframkvæmdir við gríðarstórt hús fyrir gagnaver á gamla flugvallarsvæðinu á Suðurnesjum.

Fyrri greinStarfsíþróttamót á Hellu á laugardag
Næsta greinLokahelgi sýningar Guðrúnar Arndísar í Sesseljuhúsi