Sigurjón Andrésson, ráðgjafi hjá Góðum samskiptum og verkefnastjóri hjá Sveitarfélaginu Ölfusi, hefur verið ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Bæjarráð samþykkti í dag ráðningu Sigurjóns og mun hann hefja störf þann 1. júlí næstkomandi.
Sigurjón er 52 ára og búsettur í Hvítholti í Flóahreppi. Hann hefur undanfarið starfað sem ráðgjafi hjá Góðum samskiptum í Reykjavík ásamt því að vera verkefnastjóri flóttamanna hjá Sveitarfélaginu Ölfusi. Sigurjón er nýkjörinn fulltrúi T-listans í sveitarstjórn Flóahrepps en mun segja sig frá þeim störfum í kjölfar ráðningarinnar.
Sigurjón starfaði lengi vel sem stjórnandi hjá tryggingafélaginu Sjóvá, lengst af við kynningar- og markaðsmál ásamt öryggis- og forvarnamálum. Þá var hann framkvæmdastjóri markaðsmála hjá BL bílaumboði. Sigurjón er iðnmenntaður í grunninn með diploma í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands, alþjóðlega gráðu í verkefnastjórnun frá Bandaríkjunum og meistaragráðu í viðskiptafræði (MBA) frá Háskólanum í Reykjavík.
Sigurjón býr sem stendur ásamt fjölskyldu sinni í Hvítholti. Hann er giftur Margréti Söru Guðjónsdóttur kennara við Menntaskólann í Reykjavík og eiga þau tvær dætur, 22 og 24 ára.
Í frétt á vef Hornafjarðar segist Sigurjón vera „geysilega spenntur fyrir nýjum áskorunum. Það er mikill metnaður í því fólki sem ég hef þegar hitt og veit að það eru mikil tækifæri fram undan hjá sveitarfélaginu. Ég hlakka til að flytja austur og kynnast samfélaginu betur og mun leggja mig allan fram í mínum störfum fyrir sveitarfélagið.“