Sigurður framkvæmdastjóri lækninga- og sjúkrasviðs

Sigurður Böðvarsson. Ljósmynd/Atli Rúnar Halldórsson

Sigurður Böðvarsson, sérfræðingur í krabbameinslækningum, hefur verið ráðinn framkvæmdstjóri sjúkrahússviðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, en hann gegnir jafnframt stöðu framkvæmdastjóra lækninga.

Sigurður hefur starfað sem yfirlæknir göngudeildar á sjúkrahússviði HSU frá því í desember 2018 og á síðasta ári leysti hann jafnframt af sem framkvæmdastjóri lækninga í fjarveru Hjartar Kristjánssonar.

Áður en Sigurður kom á HSU starfaði hann í fjölda ára í Bandaríkjunum sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Gundersen Health System í La Crosse í Wisconsin og við Green Bay Oncology í Green Bay Wisconsin. Þar áður starfaði hann um níu ára skeið sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítala.

Sigurður hefur áralanga reynslu af meðferð krabbameinssjúklinga, rannsóknum, kennslu og stjórnun, var um tíma formaður Læknafélags Reykjavíkur og sat í stjórn Læknafélags Íslands. Hann lauk meistaragráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2009.

Fyrri grein„Fólkið beið í bílnum og var öruggt“
Næsta greinGefðu framtíðinni tækifæri