Sigur fyrir íbúa Mjólkurbúshverfisins

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur fellt úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 9. maí 2007 um deiliskipulag lóða við Austurveg og við Grænumörk á Selfossi.

Þar með er fengin niðurstaða í langvinnt deilumál en íbúar á svæðinu höfðu mótmælt harðlega byggingu sex hæða fjölbýlishúsa á svæðinu.

Málavextir eru þeir að á árinu 2006 samþykkti bæjarstjórn Árborgar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi lóðanna að Austurvegi 51-59, Selfossi sem fól í sér að lóðirnar yrðu sameinaðar í eina lóð og að heimilt yrði að byggja þar tvö sex hæða fjölbýlishús, ásamt tengibyggingu við húsið að Grænumörk 5. Samkvæmt tillögunni var nýtingarhlutfall fyrirhugað 2,0. Svæði þetta hafði ekki áður verið deiliskipulagt.

Athugasemdir vegna tillögunnar bárust frá 33 einstaklingum og einum lögaðila. Kærendur byggðu á því að áður en hin kærða ákvörðun hafi verið samþykkt hafi borið að auglýsa og kynna tillögu þess efnis. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa eða þeim kynnt ný deiliskipulagstillaga, sem hafi tekið gildi.

Taldi úrskurðarnefndin að ekki hafi verið færð fram fullnægjandi rök fyrir því að taka einungis umrætt svæði til deiliskipulags, en svæðið er hluti götureits og hluti landnotkunarreits, í hverfi sem ekki hefur verið deiliskipulagt í heild. Því var kærða ákvörðun felld úr gildi.

Að sögn Óskars Sigurðssonar hrl., sem flutti málið fyrir íbúanna, er óheppilegt hve lengi hefur tekið að fá úrskurð í málinu. ,,Niðurstaðan sýnir að málsmeðferð og vinnubrögð við gerð deiliskipulags á svæðinu var mjög áfátt. Þarna var ekki fylgt eftir fyrirmælum skipulagslaga. Málsmeðferðin reyndist öll ólögmæt sem var í samræmi við það sem íbúarnir höfðu sagt,“ sagði Óskar. Hann sagði að það blasti við að ekkert deiliskipulag væri nú á svæðinu.

Eftir bankahrunið runnu byggingaráformin út í sandinn en samningur Fossafls ehf. og sveitarfélagsins um uppbyggingu á reitnum er útrunninn. Í júlí sl. var heildarskipulagi hverfisins vísað til umsagnar í byggingar- og skipulagsnefnd en hún hefur ekki afgreitt málið ennþá.

Fyrri greinAðstoðuðu fasta Breta
Næsta greinRjúpnaveiðitímabilið hafið