Sigurður meðal keppenda

Sigurður Ágústsson, matreiðslumaður í Tryggvaskála á Selfossi, er meðal þeirra sautján sem skipa kokkalandslið Íslands sem keppa mun á ólympíuleikum í matreiðslu síðar í mánuðinum.

Kokkalandsliðið fylgir þar eftir framúrskarandi árangri sínum frá síðasta heimsmeistaramóti sem skilaði liðinu í 5. sæti á heimslista. Liðið er í toppformi og á lokaspretti í sínum undirbúningi en æfingar hafa staðið yfir í 18 mánuði.

Ólympíuleikar í matreiðslu, eru haldnir á fjögurra ára fresti og verða haldnir í Þýskalandi 21.-26. október. Ólympíuleikar eru stærsta og mest krefjandi keppni kokkalandsliða í heiminum. Þar mætast 2000 af færustu kokkum heimsins frá um 50 þjóðum og keppa sín á milli.

Sigurður sagðist í samtali við Sunnlenska vera mjög spenntur yfir verkefninu framundan með landsliðinu. Hann segir jafnframt að gestir veitingahússins Tryggvaskála muni eflaust fá að njóta á einhvern hátt þess sem verður á borðum landsliðsmannanna í þessari keppni.

„Já, þarna er maður að fara að sjá og prufa fullt af nýjum og spennandi hlutum, og það mun skila sér á einn eða annan hátt á borð gesta okkar hér í Tryggvaskála,“ segir Sigurður.

Fyrri greinGóðæri í kornræktinni
Næsta greinGuðmundur leiðir lista Alþýðu-fylkingarinnar