Sigurður fékk Uppsveitabrosið

Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, hlaut Uppsveitabrosið 2016 en viðurkenningin er veitt árlega einstaklingi eða fyrirtæki.

Í tilkynningu frá aðstandendum Uppsveitabrossins segir að Sigurður stýri Háskólafélagi Suðurlands styrkum höndum og góð samvinna sé aðalsmerki hans og starfsmanna.

Megin tilgangur félagsins er að auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags. Fjölmörg verkefni eru í gangi hjá Háskólafélaginu m.a. þróun og uppbygging náms sem stuðlar að nýsköpun í matvælaiðnaði og í ferðaþjónustu í samstar við erlenda háskóla.

Þar sem brosið er óáþreifanlegt fylgir því ævinlega hlutur sem handverks- eða listamaður í uppsveitunum býr til. Í ár er það gripur úr listasmiðju Sólheima og listamaðurinn er Kristján Már Ólafsson. Merki Uppsveitabrossins er hannað af Ingunni Jónsdóttur verkefnastjóra hjá Háskólafélaginu.

„Uppsveitamenn leggja áherslu á góða samvinnu og jákvæðni og það að senda út bros minnir á það,“ segir í tilkynningu.

Fyrri greinHamarsmenn öruggir í úrslitakeppnina
Næsta greinÞór Davíðsson Íslandsmeistari