Sigurður Ingi ræsir mjólkur-pökkunarvélina

Mjólkursamsalan opnar formlega á morgun kl. 17 endurnýjaða vinnslustöð á Selfossi en Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, mun þá ræsa stærstu mjólkurpökkunarvél búsins.

Í fréttatilkynningu segir að mjólkurvinnsla á Selfossi aukist um 40% þegar liðlega 20 milljóna lítra mjólkurpökkun flyst þangað frá Reykjavík. Mjólkursamsalan hefur þá fjárfest í mjólkurbúinu á Selfossi fyrir rúmlega einn og hálfan milljarð króna á fjórum árum. Heildarendurskipulagningu búsins og mjólkurvinnslu í landinu er því um það bil að ljúka.

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar segir í tilkynningunni að með endurnýjun vinnslustöðvarinnar verði öll vinnsla og pökkun drykkjarmjólkur fyrir vestan- og sunnanvert landið færð til Selfoss og þar verði einnig framleiðsla á sýrðum vörum og viðbiti fyrir allt landið.

„Markmið fyrirtækisins er að tryggja neytendum mikið vöruúrval og vörugæði og hagkvæmt vöruverð. Uppbyggingin á Selfossi styrkir fyrirtækið í sókn að þessum markmiðum. Við erum þegar komin með á markað fyrstu nýjungarnar í drykkjarvörum og neyslumjólk í breyttum umbúðum. Von er á enn fleiri nýjungum í öllum þessum vöruflokkum.“

Fyrri greinFékk þriggja mánaða dóm fyrir líkamsárás
Næsta greinGarðeigendur hvattir til að klippa