Sigurður Ingi næsti forsætisráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, 1. þingmaður Suðurkjördæmis, verður næsti forsætisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Hann tilkynnti í Alþingishúsinu í kvöld að boðað verði til ríkisráðsfunda á morgun þar sem hann mun taka við embættinu af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Sigurður Ingi var bóndi í Dalbæ í Hrunamannahreppi á árunum 1987-1994 og var samhliða bústörfum sjálfstætt starfandi dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu 1990-1995. Þá var hann dýralæknir hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf. 1996-2009 og oddviti Hrunamannahrepps frá 2002 allt þar til hann settist á þing árið 2009.

Hann hefur gegnt ráðherraembætti í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og síðar Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu síðan árið 2013.

Fyrri greinVortónleikar Karlakórs Rangæinga framundan
Næsta greinSelfoss mætir Gróttu í úrslitakeppninni