Sigrún ráðin skólastjóri Kerhólsskóla

Sigrún Hreiðarsdóttir. LJósmynd/Grímsnes- og Grafningshreppur

Sigrún Hreiðarsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri við Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Tveir umsækjendur voru um starfið.

Sigrún hefur starfað sem kennari um árabil og síðastliðin tvö ár verið hluti af stjórnunarteymi Kerhólsskóla, sem er samrekinn leik- og grunnskóli.

Hún lauk BS-prófi í íþróttafræði frá Kennaraháskóla Íslands og MS-prófi á heilbrigðisvísindasviði. Að auki hefur hún sótt fjölmörg starfstengd námskeið, lokið viðbótardiplóma í starfsendurhæfingu og grunnnámi í markþjálfun.

Sveitarstjórn Grímenes- og Grafningshrepps staðfesti ráðningu Sigrúnar á fundi sínum í byrjun júní og tekur hún til starfa í dag, 1. júlí.

Fyrri greinBráðaviðbragð skipulagt í Öræfum til framtíðar
Næsta greinÓður til Vestmannaeyja og gleðinnar á Þjóðhátíð