Sigrún meðal styrkþega

Sigrún Jónsdóttir á Selfossi er meðal afreksnema sem hlutu í vikunni styrki til náms við Háskóla Íslands. Styrkirnir eru veittir afburðanemendum sem hafa innritað sig til náms við skólann í haust.

Sigrún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á síðasta ári og tók það hana aðeins þrjú ár. Hún hlaut fjölmörg verðlaun fyrir árangur í námi.

Samhliða námi í framhaldsskóla æfði Sigrún fimleika með bæði meistaraflokki Selfoss og Fimleikaakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands ásamt því að þjálfa yngri iðkendur í greininni.

Sigrún stefnir á nám í læknisfræði í haust. Alls hlutu 27 nemendur styrkinn, sem nemur 300 þúsund krónum en auk þess verður greitt skrásetningargjald fyrir styrkþegana sem er 75 þúsund krónur.