Sigríður og Hilmar ráðin skólastjórar

Sigríður Birna Birgisdóttir og Hilmar Björgvinsson.

Sigríður Birna Birgisdóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri í Goðheimum á Selfossi og Hilmar Björgvinsson hefur verið ráðinn skólastjóri Stekkjaskóla á Selfossi.

Fimm sóttu um starf leikskólastjóra Goðheima sem er nýr skóli í byggingu við Engjaland á Selfossi.

Sigríður Birna er með M.Ed. próf í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana. Hún er einnig með M.Ed. próf í náms og kennslufræði með áherslu á kennslu yngri barna og tvö leyfisbréf sem leikskólakennari og grunnskólakennari. Hún hefur verið leikskólastjóri Brimvers/Æskukots frá 2015 og hefur reynslu af leikskólastjórn frá árinu 2010. Auk þess hefur Sigríður Birna starfað sem starfsmaður í leikskóla, leikskólakennari og deildarstjóri á árunum 1986-2010 í leikskólum í Sveitarfélaginu Árborg.

Alls bárust ellefu umsóknir um starf skólastjóra Stekkjaskóla, sem rísa mun í Björkurstykki, nýju hverfi á Selfossi. EInn umsækjandi dró umsókn sína til baka.

Hilmar er með M.Ed. próf í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana. Hann stundaði framhaldsnám í listum og handverki í Statens håndverks- og kunstindustriskole í Osló og er langt kominn með diplómanám í opinberri stjórnsýslu fyrir stjórnendur í opinberum rekstri. Hann hefur verið aðstoðarskólastjóri og deildarstjóri yngsta stigs í Lindaskóla í Kópavogi frá 2013. Á árunum 2005-2013 var Hilmar skólastjóri Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi. Frá árunum 1987 til 2005 stundaði Hilmar ýmis kennslu- og stjórnunarstörf, kenndi m.a. í Sólvallaskóla og Vallaskóla á Selfossi.

Fyrri greinEldur í klæðningu hjá MS
Næsta greinStirður sóknarleikur í fyrsta tapleiknum