Sigríður Munda ráðin sóknarprestur

Sigríður Munda Jónsdóttir. Ljósmynd/kirkjan.is

Kjörnefnd Þorlákshafnarprestakalls kaus sr. Sigríði Mundu Jónsdóttur í starf sóknarprests  og hefur biskup Íslands staðfest ráðningu hennar.

Auglýst var eftir sóknarpresti til þjónustu við prestakallið frá og með 1. febrúar og sóttu sex um starfið. Sigríður Munda er ráðin ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Sigríður Munda er fædd á Akranesi 1. júlí 1966 og ólst upp í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hún lauk guðfræðinámi árið 2003 og var vígð til Ólafsfjarðarprestakalls árið 2004, þar sem hún hefur starfað síðan.

Sr. Sigríður Munda hefur lagt gjörva hönd á margt. Hún hefur fengist við kennslu og unnið á leikskólum, sinnt landvörslu svo nokkuð sé nefnt. Hún var meðritstjóri Orðsins, rits Félags guðfræðinema, sat í héraðsnefnd Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, varamaður í stjórn P.Í., var stjórnarkona í Félagi prestsvígðra kvenna. Hún sat í stjórn Ólafsfjarðardeildar Rauða kross Íslands í nokkur ár; hefur verið félagi í Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar. Hún hefur setið á kirkjuþingi frá 2018 fyrir vígða í Hólakjördæmi.

Í Þorlákshafnarprestakalli, eru tvær sóknir, Þorláks- og Hjallasókn í Ölfusi og Strandarsókn, með tæplega 1.800 íbúa og þrjár kirkjur; Þorlákskirkju, Hjallakirkju og Strandarkirkju.

Fyrri greinSkjálfti nálægt Hellisheiðarvirkjun
Næsta greinHálf milljón króna í posanum eftir vaktina