Sigríður Birna tekur við leikskólunum á ströndinni

Sigríður Birna Birgisdóttir á Stokkseyri hefur verið ráðin leikskólastjóri sameinaðra leikskóla Brimvers á Eyrarbakka og Æskukots á Stokkseyri.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Flóahrepps, en Sigríður Birna hefur verið leikskólastjóri á leikskólanum Krakkaborg í Flóahreppi síðan 1. maí sl. Sú staða hefur nú verið auglýst og stefnt að ráðningu frá 1. ágúst.

Uppsögn Sigríðar Birnu í Flóahreppi tengist fyrst og fremst því að hún hafi fengið atvinnutækifæri í sinni heimabyggð við ströndina.

Sigríður tók það skýrt fram í uppsagnarbréfi sínu að henni hafi líkað mjög vel í Krakkaborg og átt gott samstarf við alla þá sem að skólastarfinu koma. Í niðurlagi bréfsins stendur orðrétt: „Það eru forréttindi að hafa fengið að upplifa þau gæði og mannauð sem skólastarfinu í Krakkaborg eru búin og fyrir það er ég þakklát.“

Fyrri greinNý vinnsluhola boruð á Hellisheiði
Næsta greinNýbyggingin opnuð á laugardag