Siglt frá Landeyjahöfn 21. júlí

Eimskip ráðgerir að hefja siglingar Herjólfs frá Landeyjahöfn þann 21. júlí. Upphaflega áttu ferðir að hefjast 1. júlí.

Kynningarfundur um Landeyjahöfn var haldinn í Vestmannaeyjum í gær og þar sagði Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri Eimskips innanlands, að ef hægt væri að hefja siglingar fyrr þá yrði það gert.

Siglingin milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja á að taka 40 mínútur og yfir sumartímann mun Herjólfur fara fjórar til fimm ferðir milli lands og Eyja á dag. Á veturna fækkar ferðunum niður í þrjár flesta daga, en fjórar á föstudögum og sunnudögum.

Vegagerðin er í viðræðum við sérleyfishafa á Suðurlandi um almenningssamgöngur frá Landeyjahöfn. Stefnt er að 2-3 ferðum á dag í tengslum við ferðir Herjólfs. Viðmiðið væri að hægt væri að fara frá Eyjum að morgni og koma aftur til baka að kvöldi. Ef viðræður við sérleyfishafa skila ekki árangri verður farið í útboð.

Fyrri greinSpá Selfyssingum beint niður aftur
Næsta greinAldarafmæli varnargarða við Markarfljót