Siggi stýrir ungmennabúðunum á Laugarvatni

Sigurður Guðmundsson. Ljósmynd/UMFÍ

„Ég er mjög spenntur að koma á Laugarvatn og halda áfram að byggja upp starfið þar á þeim góða grunni sem starf Ungmennabúðanna er reist á,“ segir Sigurður Guðmundsson, sem ráðinn hefur verið forstöðumaður Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni.

Sigurður tekur við starfinu af Önnu Margréti Tómasdóttur, sem hefur snúið sér að öðrum verkefnum.

Ungmennafélagi fram í fingurgóma
Sigurður hefur tekið sér margt skemmtilegt fyrir hendur og þekkir gríðarlega vel til starfs UMFÍ og ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann er eiginmaður, faðir fjögurra barna og býr fjölskyldan á Hvanneyri.

Sigurður er íþróttafræðingur að mennt og hefur síðastliðin ár verið framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) auk þess að vera í hlutastarfi hjá UMFÍ. Sigurður er jafnframt einkar laghentur enda húsasmiður að mennt.

Líf og fjör í ungmennabúðum
Ungmennabúðir UMFÍ eru fyrir nemendur í 9. bekk grunnskóla um allt land og eiga þeir möguleika á að dvelja þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf. Markmiðið með dvöl ungmennanna er að styrkja félagsfærni þeirra, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.

Aðsókn í Ungmennabúðir UMFÍ hefur aukist mikið síðustu ár enda vinsælt að komast í heilbrigða hvíld þar sem m.a. farsímar og tölvur trufla ekki nemendur. Árlega koma rúmlega 2.000 ungmenni í búðirnar og eru þær snemma fullbókaðar.

„Ég hlakka til að halda áfram að efla hug og hjörtu ungs fólks á Laugarvatni. Ungmennafélagsandinn er þar alltumlykjandi og alveg yndislegt að vera þar,“ heldur hann áfram.

Ljósmynd/UMFÍ
Fyrri greinVatnshæðin stöðug við Sveinstind
Næsta grein„Aldrei eins mikilvægt að efla andlega hlið ungmenna eins og nú“