Sigfús Kristinsson, húsasmíðameistari á Selfossi, hélt upp á 93 ára afmælið sitt í dag með útgáfu sjálfsævisögu sinnar, Með hamarinn á lofti í 80 ár.
Fjöldi gesta, fyrrverandi starfsmanna og vina samgladdist Sigfúsi í Fagrabæ við Bankaveg í dag. Sigfús hefur í gegnum árin byggt fjölmörg hús, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga á Selfossi og víðar, með harðsnúinn hóp starfsmanna sér við hlið.
„Það var fyrir sex, sjö árum að þessi hugmynd kviknaði hjá mér. Það var orðið rólegt í smíðinni og mig vantaði eitthvað að gera. Þá fór ég að skrifa um helstu byggingarnar hjá mér; sjúkrahúsið, vöruhúsið, fjölbrautaskólaskólann og þegar það var komið hjá mér þá hélt ég bara áfram að skrifa ævisöguna,“ sagði Sigfús í samtali við sunnlenska.is.
„Ég skrifaði hana alla sjálfur og hef verið að vinna að því í nokkur ár. En ég þurfti að fela skrifin fyrir Guðmundi bróðir, hann harðbannaði mér alltaf að skrifa. Ég skrifa, sagði Guðmundur, þú átt bara að smíða – og hann var harður á því. Það kom þó aldrei til umræðu að hann myndi skrifa mína sögu, ég held að hann hafi ekki nennt því,“ sagði Sigfús léttur.
„Ég er búinn að halda saman miklu magni af gömlum myndum og öllu mögulegu sem finna má í bókinni, svo skrifa ég mikið um ætt mína, úr Litlu-Sandvík og fleira,“ sagði Sigfús ennfremur en áhugasamir lesendur geta heimsótt Sigfús á Bankaveginn og keypt hjá honum bók.
Ritsmiðurinn Sigfús er ánægður með útkomuna en segir fleiri bækur ekki í burðarliðnum. „Ég gæti nú ekki byrjað á þessu í dag, ég var alveg á síðustu metrunum með þetta verk, þó ég sé heilsuhraustur og eigi gott með mat og svefn. Ég er bara stirður í fótunum en það tilheyrir aldrinum,“ segir Sigfús Kristinsson hress að lokum.




