Síðasti skellurinn fór illa með margt

Margrét Magnúsdóttir í garðyrkjustöðinni Heiðarblóma á Stokkseyri. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Hjá Gróðrarstöðinni Heiðarblóma á Stokkseyri er allt komið á fullt eftir erfiðan vetur og einstaklega kalt vor.

Loksins er farið að afgreiða gróðurmold á kerru en það hefur ekki gerst áður að sala á henni hefjist ekki fyrr en um miðjan júní. Ástæðan er sú að ekki var hægt að vinna moldina sökum mikillar vætutíðar. Margir voru því orðnir óþreyjufullir að fá mold í beðin hjá sér eða gróðurkassana og var komin röð í moldarsöluna áður en hún opnaði, þegar blaðamann sunnlenska.is bar að garði í gær.

Það er alltaf gott að koma til Margrétar Magnúsdóttur hjá Heiðarblóma. Hér er á ferðinni kona með mikla reynslu og þekkingu, sem hún miðlar til fólks af mikilli alúð. Þrátt fyrir annríki gaf Margrét sér tíma til að setjast niður með blaðamanni sunnlenska.is í miðri gróðrarstöðinni – innan um litrík blóm, fjölbreyttar trjáplöntur og fuglasöng.

„Þetta er búinn að vera hrikalegur vetur gróðurfarslega séð og þegar maður hélt að allt væri nú búið og allt farið að laufgast, þá kom síðasti skellurinn og þá náttúrulega fór margt óskaplega illa. En við erum svo heppin hérna á Stokkseyri að gróðurinn er miklu seinna á ferðinni, yfirleitt,“ segir Margrét.

Rokið verra en snjórinn
Margrét segir að hún hafi verið byrjuð að taka til á planinu og fara út með plöntur í lok apríl. „Daginn eftir þá komst ég ekki að fyrir sköflum. En það var ekki það versta. Snjórinn er allt í lagi – hann getur brotið niður og svoleiðis en það var þessi ofboðslegi kuldi og rok. Það fór margt mjög illa í þessu síðasta veðri núna í maí. En þetta er allt að jafna sig – og þetta mun jafna sig,“ segir hún með áherslu.

Margar plöntur fóru illa út úr kuldakastinu í maí og nefnir Margrét sérstaklega mispilinn í því samhengi. „Gömul sírena sem ég var búin að halda mikið upp á – hún snérist bara á rótinni. Hún var örugglega 25 ára eða meira og alltaf svo flott en hún þoldi ekki þennan skell.“

„Það eru svo mikil áraskipti á hvaða plöntur þola hvað. Birki fer yfirleitt ekki mjög snemma af stað, það er náttúrulega íslensk tegund en ilmreynirinn er líka íslensk tegund en hann fór illa. Aspir eru sumstaðar alveg svartar en það er mjög misjafnt eftir kvæmum. Þannig að þetta er voða sérstakt. En þessi vindátt var mjög öflug. Ég var með sírenur í hillum hérna á móti hvorri annarri. Öðrum megin urðu þær svartar, hinum megin sá ekki á þeim og það segir mér hvað vindáttin og skjólið hefur mikið að segja.“

Mikilvægt að hlúa vel að plöntunum
Aðspurð hvað fólk geti gert til að hjálpa plöntunum að jafna sig hraðar segir Margrét að það eigi einfaldlega að hugsa vel um þær. „Gefa þeim áburð að borða og vökva þær í þurrki – sérstaklega ungplöntur. Eitthvað sem þú keyptir í fyrra eða hittifyrra, sérstaklega í fyrra, það getur ekki séð um sig sjálft ennþá. Sérstaklega ekki hekkplöntur. Þær verða fá vökvun til að komast að stað. Og bera á þrisvar yfir sumarið.“

„Það er mjög mikilvægt að setja skít með í upphafi þegar það er verið að gróðursetja tré – það er algjört skilyrði. Það að fara að gróðursetja í einhvern rudda – með engum skít – það er dauðadæmt. Tala nú ekki um hér á þessu svæði. Svo skiptir líka máli að láta grasið ekki vaxa mikið upp að þeim. Það þarf að halda því frá fyrstu árin.“

„Svo bara að vökva og bera á og klippa allt kal úr – en ekki of snemma. Það gengur sú saga að það sé of seint að klippa eftir mars eða apríl en það er ekki rétt. Og alls ekki við ströndina, því að ef ég klippi of snemma hér þá getur komið svona áfall eins og kom í lok apríl og þá kela plönturnar ennþá meira. Bíða bara – það liggur ekkert á. Það er gott að klippa plöntur sem eru í örum vexti, þær eru fljótari að jafna sig en plöntur sem eru í dvala.“

Margir voru því orðnir óþreyjufullir að fá mold í beðin hjá sér eða gróðurkassana. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Hengi petúníur og aspir vinsælast
Margrét segir að í sumarblómunum séu hengi-petúníur alltaf númer eitt hvað varðar vinsældir. „Þær eru svo flottar en þær þurfa skjól. En svo eru þessi litlu blóm eins og fjólur, stjúpur og morgunfrúin alltaf vinsælar. Í trjáplöntunum þá eru þessar sterku aspir vinsælastar en ég hef verið með keisara og jóru sem er hvort tveggja mjög fallegt yrki.“

„Dekurplöntur eins og lyngrós og plöntur með rauðum blöðum hafa verið mjög vinsælar. Og skrautkirsuber hefur líka verið voða vinsælt núna og líka fjallarifsið í staðinn fyrir víðitegundirnar, það hefur svona tekið við og líka gljámispillinn.“

„Hengitóbakshorn, snædrífa og sólboði eru vinsælustu blómin og auðvitað minni sumarblóm í bökkum þegar líður á júní er það skógarmalva og tárablóm. Öspin er vinsælust hér við ströndina en í grónari garða og nýja kaupir fólk eitthvað allt annað, en ég vil benda á að sírena og heggur hafa reynst afar vel hér á þessum slóðum. Megnið af trjáplöntunum eru hafðar utandyra allt árið. Aðeins dekur plöntur eru geymdar í gróðurhúsi og svo auðvitað sumarblómin.“

Konur í meiri hluta
Að sögn Margrétar er mikið meira af konum en körlum sem koma í gróðrarstöðina til hennar. „En það er fullt af körlum líka og þeir byrja að koma mest í moldina, þá fá þeir sér mold á kerru. Hjónafólk kemur mikið hingað og eldra fólkið kemur til þess að láta mig setja í ker fyrir sig, sem það fer með út í kirkjugarð og heim og svona.

„Það er mjög mikið af ungu fólki sem kemur til mín og kaupir fyrstu plönturnar í garðinn sinn. Það er kannski ekki alveg komið með áhugann en vill gera eitthvað en svo kemur þetta smátt og smátt. Það er bara eins og ég – ég fór frekar seint í garðyrkjuskólann og hafði ekkert mikið vit á þessu öllu þegar ég var yngri. Ég hafði alveg áhugann en svo bara bara allt í einu fannst mér þetta hrikalega gaman og þá fór ég í skólann.“

Margar hendur vinna létt verk
Heiðarblómi er stofnaður í kringum 1990 af foreldrum Margrétar, þeim Magnúsi Gunnari Sigurjónssyni og Viktoríu Þorvaldsdóttur. „Ég hef starfað í Heiðarblóma í átján ár en hef verið viðloðandi við þetta alla tíð síðan Heiðarblómi var stofnaður. Pabbi sá um ýmsa hluti hér í Heiðarblóma allt fram á síðasta dag eða réttara sagt þar til síðasta sumarið sem hann lifði. Hann lést í desember 2021 og var mín stoð og stytta og hrósaði mér óspart. Hans skarð er vandfyllt og þeirra beggja foreldra minna, mamma dó 2017, en ég reyni mitt besta.“

Margrét fær góða hjálp úr ýmsum áttum við gróðrarstöðina enda mikil vinna sem fylgir því að viðhalda svona flottri gróðrarstöð. „Árið 2018 var stofnað félag um reksturinn og erum við systkinin öll hluthafar. Systkini mín starfa öll annars staðar og Signý systir er búsett erlendis. Það hefur svo aðallega komið í minn hlut að sjá um daglegan rekstur með góðri hjálp systkina minna, vinkvenna sem koma sem sjálfboðaliðar í prikl og umpottun og fleira. Öll óeigingjarna hjálpin sem við höfum fengið í gegnum tíðina er ómetanleg. Það er oft rosa fjör hérna hjá okkur og ég er þeim alveg ofboðslega þakklát.“

„Tengdasynir mínir hafa verið liðtækir í moldarvinnslunni síðastliðin sumur en í gegnum tíðina hafa það aðallega verið Þorvaldur sem nú er látinn og Vilhjálmur sem hafa séð um þá hlið. Gunnar vinur okkar hefur svo tekið að sér að moka á kerrurnar undanfarin sumur. Bjarni bróðir sem nú býr í húsi foreldra minna er mér afar hjálplegur, því sumt ræð ég ekki við ein, eins og vinnsluna á pokamoldinni og allskyns skilta- og smíðavinnu. Allir í fjölskyldunni hafi lagt hönd á plóginn í gegnum tíðina“ segir Margrét.

Frá Stokkseyri til Stöðvarfjarðar
„Mig langar bara að þakka gömlu góðu kúnnunum sem koma alltaf aftur og hinu fólkinu sem koma í fyrsta sinn og kemur svo aftur – og alls staðar af landinu. Ég var að senda plöntur á Stöðvarfjörð. Einu sinni kom hingað maður – þegar ég var tekin við af pabba og hann spurði „hvaðan ertu og hverja manna ertu“ – og ég spurði hann hvort hann væri að koma langt að og hann sagði „nei nei, bara frá Hólmavík“. Honum fannst það ekkert langt,“ segir Margrét og hlær.

Fyrri greinÍbúafundur með ráðherra um menningarsalinn á Selfossi
Næsta greinLengjudeildarliðið sló Selfoss úr bikarnum