Síbrotamaður dæmdur í 12 mánaða fangelsi

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær 43 ára gamlan reykvískan karlmann í 12 mánaða fangelsi fyrir innbrot í sumarhús á Stokkseyri í desember sl. og kerruþjófnað á Selfossi í fyrrasumar.

Þann 17. desember braust maðurinn inn í sumarhúsið Ísólfsskála, rétt vestan Stokkseyrar. Hann braut rúðu með hamri og fór inn en lét sig svo hverfa þegar þjófavarnarkerfi fór í gang. Síðar sömu nótt reyndi hann að spenna upp útidyrahurð í bílskúr við Árlund í Flóahreppi. Maðurinn var einnig ákærður fyrir að stela kerru við iðnaðarhúsnæði í Gagnheiði á Selfossi í júní sl.

Lögfræðingur mannsins lagði fram vottorð frá geðlækni þar sem fram kom að maðurinn ætti við andlega vanheilsu að stríða auk þess sem glímdi við áfengis- og vímuefnavanda. Ákærði ætti langa sögu um andfélagslega hegðun og hann ætti erfitt með að finna fyrir iðrun.

Maðurinn á langan sakaferil að baki fyrir margvísleg brot sem spanna allt aftur til ársins 1986. Með broti sínu rauf hann reynslulausn vegna eldri dóms. Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, taldi því hvorki skilyrði til að láta reynslulausn ákærða haldast né að skilorðsbinda refsinguna nú.

Fyrri greinBjörgunarsveitir biðu á Landvegamótum
Næsta greinNjálumót í Þórbergssetri í kvöld